
Að kaupa minna snýst ekki bara um sparnað, heldur minnkar það líka rusl og álag á umhverfið. Þegar við tökum meðvitaðri ákvarðanir, spyrjum okkur hvort þetta sé eitthvað sem okkur vantar eða hvort þetta sé bara skyndiáhugi, þá endum við með færri óþarfa hluti sem enda að lokum í ruslinu.

Notaðar vörur eru ekki bara ódýrari, þær eru líka umhverfisvænni. Það er fjöldinn allur af stöðum þar sem hægt er að finna allt frá húsgögnum yfir í fatnað á góðu verði, til dæmis í Góða hirðinum. Notaðir hlutir eru oft í toppstandi og bíða bara eftir því að eignast nýtt líf hjá nýjum eiganda.

Gæðin skipta máli. Þegar við veljum vandaðar vörur sem endast lengur þá þurfum við síður að skipta þeim út, þær eru líka líklegri til að vera endurnýttar og auðveldara að selja þær. Það borgar sig því oft til lengri tíma að kaupa eitt gott en þrennt sem skemmist fljótt.

Við erum stundum of fljót að skipta hlutum út bara af því að þeir eru orðnir gamlir eða við sjáum eitthvað nýtt og spennandi. En nýtt er ekki alltaf betra. Oft dugar smá lagfæring eða einfaldlega að gefa hlutnum annað tækifæri. Því lengur sem við notum það sem við eigum, því minna þurfum við að kaupa og henda.

